Glitnir segir ekki heppilegt að stýrivaxtahækkun hafi komið á óvart

Greining Glitnis segir að óhætt sé að segja að Seðlabankinn hafi komið markaðinum að óvörum með 0,45 prósentustiga hækkun stýrivaxta 1. nóvember sl. „Slíkt er í raun ekki heppilegt því almennt er talið að það auki trúverðugleika að framkvæmd peningastefnunnar sé gagnsæ og fyrirsjáanleg."

Segir í nýrri stýrivaxtaspá Greiningar Glitnis að það sé á brattann að sækja fyrir Seðlabankann í að ná verðbólgumarkmiði sínu.

„Ljóst er að stýrivextir verða hærri næstu misseri en við höfðum áður spáð. Kemur það bæði til af því að vextir í upphafi næsta árs verða hærri en flestir áttu von á, og eins hinu að ekki er hægt að útiloka að vextir verði hækkaðir frekar í desember. Verði sú raunin er bankinn búinn að hefja á ný vaxtahækkunarferli eftir óbreytta stýrivexti frá lokum síðasta árs. Síðast en ekki síst eru nú líkur á að bankinn taki að lækka vexti síðar á næsta ári en við töldum áður. Við teljum auk heldur ólíklegt að Seðlabankinn nái að lækka vexti jafn hratt og fram kemur í nýbirtum stýrivaxtaferli í Peningamálum þar sem svo hröð lækkun mun kalla fram snarpa gengislækkun og vinna gegn verðbólgumarkmiði bankans. Einnig teljum við að framundan sé öllu meiri vöxtur efnahagslífsins en Seðlabankinn spáir," samkvæmt stýrivaxtaspá Greiningar Glitnis.

Vaxtalækkun á 3. ársfjórðungi 2008

Greining Glitnis spáir því að vextir haldist óbreyttir í 13,75% fram á mitt næsta ár, en að Seðlabankinn hefji vaxtalækkunarferli þann 3. júlí með 0,25 prósentustiga lækkun, og að vextirnir verði komnir í 12,5% í lok ársins 2008.

„Lækkunarferli bankans mun svo að okkar mati halda áfram út árið 2009 og munu vextir bankans standa í 9,5% í lok þess árs. Óvissan er fremur í þá átt að vextir verði hærri á tímabilinu. Þetta er mun hægara vaxtalækkunarferli en bankinn telur að samræmist því að verðbólgumarkmið náist á spátímanum í nýbirtri þjóðhags- og verðbólguspá bankans. Kemur það bæði til af því að við gerum ráð fyrir meiri gangi í hagkerfinu á næstu misserum en Seðlabankinn gerir, og eins því að bankanum mun reynast erfitt að lækka vexti hratt án þess að gengi krónu lækki verulega og valdi tímabundnu verðbólguskoti," samkvæmt verðbólguspá Greiningar Glitnis.

Ný stýrivaxtaspá breytir forsendum um gengisþróun næsta kastið, enda er vaxtamunur við útlönd helsti gagnráður gengisþróunar íslensku krónunnar um þessar mundir, samkvæmt Greiningu Glitnis.

„Þannig teljum við nú ljóst að krónan muni haldast sterk langt fram eftir næsta ári. Aukinn vaxtamunur og óvissa í þá átt að vextir kunni að hækka enn frekar fyrir árslok styður einnig við gengi krónu til skemmri tíma. Á móti vegur að nú eru heldur meiri blikur á lofti en áður varðandi erlenda fjármálamarkaði. Spáum við nú að gengisvísitalan muni standa í 111 í árslok, evran í 83 kr. og bandaríkjadollar í 58 kr."

Gengi krónu lækkar um nærri 10% árið 2008

„Rétt eins og við teljum vaxtalækkunarferli lengra framundan en áður, þá gerum við nú ráð fyrir að lengra sé í að gengi krónunnar gefi verulega eftir. Spá okkar nú gerir ráð fyrir að krónan taki að veikjast undir miðbik næsta árs og að gengisvísitalan verði nærri 122 í lok ársins 2008, evran í 91 kr. og dollarinn í 64 kr. Við gerum svo ráð fyrir hægfara styrkingu krónu á árinu 2009. Þar munu togast á lækkandi vextir, þótt við teljum að þeir verði enn fremur háir, og svo hins vegar að næsta hagvaxtarskeið verður skammt undan, og þar með væntingar um að vextir taki að hækka að nýju í upphafi næsta áratugar," samkvæmt stýrivaxtaspá Greiningar Glitnis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK