Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, segir að menn meti eignir til fjár, sem eru óseljanlegar um þessar mundir. Segir Davíð, að menn hafi forðast að færa allt til bókar á þriðja ársfjórðungi sem æskilegt sé að gera þótt ekki sé verið að brjóta lög í stórum stíl.
„Hætt er við að ýmsir aðilar á markaði, hér sem erlendis, hafi viljað þreyja þriðja ársfjórðunginn í þeirri von að sá fjórði mundi bæta úr því sem aflaga hafði farið og því hafi menn forðast að færa allt til bókar á þeim þriðja, sem æskilegt væri að gera.
Ekki er verið að halda því fram að á markaði um víða veröld séu menn í stórum stíl að brjóta lög eða góða viðskiptahætti, en það má vera að víða séu reglurnar teygðar töluvert, þótt innan löglegra og jafnvel siðlegra marka sé.
Þannig eru menn að meta eignir til fjár, sem eru óseljanlegar um þessar mundir. Það er auðvitað snúið að meta markaðsverðmæti eigna sem eru óseljanlegar um lengri eða skemmri tíma.
Í langflestum tilvikum mun seljanleiki þessara eigna aukast á ný og ef fyrirtækin hafa burði til að halda þeim í eigu sinni nægilega lengi til að þær verði söluhæf vara á ný, er ekki ástæða til að ætla að hér sé hætta á ferðum. En eign sem lendir á brunaútsölu er allt önnur Ella. Það er því vandmeðfarið að ákveða markaðsvirði á meðan markaðurinn er tregur og fast að því lokaður. Allar þessar aðstæður auka tortryggni og grafa undan trausti, en í rauninni virðist vandamálið sem nú ríkir ekki síst vera vaxandi vantraust fremur en vaxandi skortur á fé. Því fyrr sem tiltrú og traust vex á nýjan leik, því fyrr verður komist út úr þessari dýfu eða kreppu, en við vitum ekki enn hvort hugtakið á við," sagði Davíð.
Ástæðulaust að banna útgáfur á bókum
Að sögn Davíðs er margt að breytast bæði hér á landi og annars staðar. Ný útgáfa af bókinni „Tíu litlir negrastrákar” vekur óróleika.
„Auðvitað er engin ástæða til að banna útgáfur á bókum, en óróleikinn sem tengist þessari bók er í raun jákvæður. Hann er merki um breytta tíma, aukinn skilning og minni fordóma. Þegar sú bók var gefin út um miðja síðustu öld, kom fæstum í hug að hún væri meiðandi á nokkurn hátt.
Nú blasir það hins vegar við að svo getur verið, því var útgáfa bókarinnar og umræður um hana jákvæð ábending um breytta tíð og breytt viðmið.
Reyndar hefur það verið svo að menn hafi verið á fleygiferð á undanförnum árum og áratugum að breyta þekktum hugtökum yfir margvísleg fyrirbæri og aðstæður í þjóðlífinu í þeim tilgangi að forðast að meiða þá sem höllum fæti kunna að standa um skemmri eða lengri tíma. Þetta er einnig jákvætt þótt stundum hafi menn ef til vill gengið í góðmennsku sinni full langt hvað þetta varðar. Hitt er einnig til að ný orð fái nánast á sig goðsagnakennda helgimynd, eins og orðið útrás sem enginn þorir að vera á móti svo hann verði ekki sakaður um að vera úr takti, hafi ekki framtíðarsýn eins og það heitir nú, og þekki ekki sinn vitjunartíma," sagði Davíð.
Ísland að verða óþægilega skuldsett í kjölfar útrásar
Formaður bankastjórnar Seðlabankans gerði útrás Íslendinga að umræðuefni í ræðu sinni. „Útrás virðist þegar grannt er skoðað ekki vera annað en venjuleg fjárfesting erlendis; auðvitað iðulega einnig nýting á þekkingu og hæfileikum í bland við fjárfestinguna. Þannig mætti kalla byggingu álvers á Reyðarfirði útrás Alcoa til Íslands. Það hefur reyndar ekki verið nefnt. Þar er það fjárfesting í bland við þekkingu í áliðnaði sem er notuð.
Úrásin er auðvitað að mörgu leyti efnileg og sumir þættir hennar hafa þegar skilað töluverðu í aðra hönd, ekki síst vegna þess að menn notfærðu sér hagfelld skilyrði og ytri aðstæður. Ódýrt fé lá um hríð hvarvetna á lausu og ýmsir aðilar hér á landi nýttu það tækifæri af djörfung og krafti. Hin hliðin á útrásinni er þó sú og framhjá henni verður ekki horft, að Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis.
Á sama tíma og íslenska ríkið hefur greitt skuldir sínar hratt niður og innlendar og erlendar eignir Seðlabankans hafa aukist verulega, þá hafa aðrar erlendar skuldbindingar þjóðarbúsins aukist svo mikið, að þetta tvennt sem ég áðan nefndi er smáræði í samanburði við það. Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.
Útrásarorðið er slíkt töframerki að jafnvel þegar menn virðast gera innrás í opinber fyrirtæki almennings, þá er innrásin kölluð útrás. Og fyrirtæki sem hafa þá frumskyldu, að lögum og samkvæmt efni máls, fyrst og fremst að veita almenningi þjónustu við hinu lægsta verði, eru í nafni útrásar skyndilega farin að taka þátt í áhættu erlendis, án þess að skynsamleg umræða um þau atriði hafi farið fram í landinu áður. Í öllum þessum efnum þurfa menn að fara að með gát," sagði Davíð.
Uppgangur okkar lofti blandaður
Að sögn Davíðs hefur Íslendingum gengið vel að undanförnu og menn hafa kunnað fótum sínum forráð, en það er heimskulegt að halda að við getum slakað á kröfum til okkar sjálfra, ef áfram á vel að fara. Ein þeirra krafna er örugglega sú, að leyfa ekki verðbólgu að festast í sessi á nýjan leik.
„Allur undansláttur á þeirri kröfu mun bitna á almenningi í landinu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Við megum ekki auka erlendar skuldir þjóðarbúsins umfram það sem nú er, þvert á móti er okkur rétt og skylt að grynnka á þeim skuldum og ná þar jafnvægi.
Útrásaráformum þarf því að setja skynsamleg mörk. Sá óhófsandi sem að nokkru hefur heltekið okkur má ekki ráða ferðinni til framtíðar. Við vitum að víða er uppgangur okkar lofti blandaður. Við því er ekkert að segja og það er eðlilegt að þættir eins og óefnislegar eignir séu fyrirferðarmiklar á uppgangstímum þegar vel gengur, en þegar á móti blæs og harðnar á dal, þarf aðeins lítið gat til að loftið leki úr slíkum eignum. Þar er því einnig aðgæslu þörf," sagði Davíð.