Greiningardeild Kaupþings bendir á það í sérriti sínu um vísitölu neysluverðs að verðbólgan hafi ekki mælst jafn há í nóvember og nú í 17 ár. Tólf mánaða verðbólga fer hækkandi og mælist nú 5,2% samanborið við 4,5% í október. Sé hins vegar litið framhjá skattalækkunum í upphafi árs mælist verðbólgan 7%.
„Almennt mælist verðbólgan lág í nóvember og er því árið í ár undantekning frá því - en verðbólgutölur í nóvember hafa ekki mælst hærri í 17 ár," að því er segir í sérriti Greiningardeildar Kaupþings en deildin spáði 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs. Raunin var 0,65% hækkun.
Í riti Greiningardeildar Kaupþings kemur fram að verðbólgutölur í nóvember eru í hærri kantinum þar sem enn og aftur er það húsnæðisliðurinn sem vegur þyngst. Líkur á vaxtahækkun af hálfu Seðlabankans á næsta vaxtaákvörðunarfundi 20. desember nk. hafa því aukist að mati Greiningardeildar.
Greiningardeild telur að kólnun sé framundan á íbúðamarkaði m.a. í ljósi erfiðara aðgengi að lánsfé og hækkandi vaxtakjara íbúðalána. Hins vegar er ólíklegt að þau áhrif verði sjáanleg fyrir næsta vaxtaákvörðunarfund Seðlabankans.
Greiningardeild gerir ráð fyrir að tólf mánaða verbólga nái hámarki í mars á næsta ári þegar áhrif skattalækkana fjara út. Á árinu 2008 er gert ráð fyrir að verðbólgan hjaðni hratt samhliða því sem dregur úr hækkun íbúðaverðs.