Vísitala neysluverðs hækkar um 0,65%

Hækkun eldsneytisverðs hafði áhrif á vísitölu neysluverðs
Hækkun eldsneytisverðs hafði áhrif á vísitölu neysluverðs mbl.is/ÞÖK

Vísitala neysluverðs hækkaði í nóvember um 0,65% frá fyrra mánuði og er það talsvert meiri hækkun en greiningardeildir bankanna höfðu spáð. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,40% frá október.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,2% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 1,9%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,5% sem jafngildir 10,3% verðbólgu á ári.

Kostnaður vegna eigin húsnæðis jókst um 1,9%, vísitöluáhrif 0,36%, en þar af voru 0,29% áhrif vegna hækkunar á markaðsverði húsnæðis og 0,07% vegna hækkunar vaxta. Verð á bensíni og díselolíu hækkaði um 2,1% (0,1%).

Vísitala neysluverðs í nóvember 2007, sem er 279,9 stig, gildir til verðtryggingar í desember 2007. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 5.527 stig fyrir desember 2007.

Í janúar breytist vísitala neysluverðs þannig að söfnun verðupplýsinga fyrir vísitöluna færist frá tveimur dögum í upphafi mánaðar til a.m.k vikutíma um miðjan mánuð. Samtímis breytist viðmiðunartími vísitölu neysluverðs til verðtryggingar, að því er segir á vef Hagstofu Íslands.

Greiningardeildir Kaupþings og Landsbankans spáðu 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs í nóvember en Glitnir spáði 0,4% hækkun vísitölunnar í nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK