Bank of America Corp., annar stærsti banki í Bandaríkjunum, mun afskrifa 3 milljarða dala á fjórða ársfjórðungi, sem rekja má til áhættusamra húsnæðislána. Joe Price, aðalfjármálastjóri bankans, sagði á ráðstefnu í dag, að bankinn myndi leggja meira fé á áhættureikning en teldi að tapið væri viðráðanlegt.
Bandarískir bankar hafa að undanförnu afskrifað fjárhæðir vegna tapaðra útlána á fasteignamarkaði. Þannig hefur Citigroup Inc. ákveðið að afskrifa 11 milljarða dala og Morgan Stanley áætlar að afskrifa um 6 milljarða dala á fjórða ársfjórðungi.
Þrátt fyrir þessa tilkynningu hækkuðu hlutabréf Bank of America síðdegis um 2,8% á Wall Street.