Hlutabréf lækkuðu í verði á Wall Street þegar viðskipti hófust í dag. Skýrist það meðal annars af áhyggjum fjárfesta af því að einkaneysla fari minnkandi vestanhafs en vísitala neysluverðs hækkaði um 0,3% í október. Er þetta í takt við spá greiningaraðila. Helstu skýringar á hækkun vísitölunnar er hækkun eldsneytisverðs og hækkun á verði matvöru.
Óttast fjárfestar að með aukinni verðbólgu, þá sérstaklega vegna hækkunar á eldsneytisverði, geti dregið úr allri neyslu neytenda. Jafnframt dragi aukning verðbólgu úr líkum á því að Seðlabanki Bandaríkjanna lækki stýrivexti enn frekar.
Á sama tíma var greint frá því að 20 þúsund hefðu bæst á atvinnuleysisskrá í Bandaríkjunum í síðustu viku en alls eru 339 þúsund manns á atvinnuleysisbótum þar í landi. Er aukningin mun meiri heldur en spáð hafði verið.
Í dag kynnti verslunarfyrirtækið J.C. Penney afkomu sína en hagnaður félagsins dróst saman um 9% á þriðja ársfjórðungi. Hefur félagið lækkað afkomuspá fyrir fjórða ársfjórðungi þar sem erfiðleikar á fasteignamarkaði minnka kaupgleði almennings.
Dow Jones vísitalan hefur lækkað um 0,03% það sem af er degi og Standard & Poor's um 0,08% en Nasdaq hefur hækkað um 0,01%. Strax við opnun markaðar lækkaði Dow Jones um 0,34%, S&P um 0,38% og Nasdaq um 0,12% en vísitölurnar hafa allar rétt úr kútnum síðan.