Ætla má að markaðsvirði skráðra eigna í eigu Exista hafi fallið um eina 40 milljarða það sem af er fjórða ársfjórðungi, þ.e. frá 1. október.
Áréttað skal að eignarhlutur Exista í Kaupþingi og Sampo, sem samtals vegur væntanlega um 50-55% í eignasafni félagsins, er færður samkvæmt hlutdeildaraðferð þannig að Exista reiknar sér ekki til tekna eða gjalda breytingar á markaðsvirði þessara félaga. Það táknar að breytingar á markaðsverði hafa ekki áhrif á rekstur eða efnahag Existu nema þá aðeins í því tilviki að markaðsvirði þeirra færi niður fyrir bókfært virði. Ætla má að samanlögð lækkun á markaðsverðmæti eigna Exista í Kaupþingi og Sampo nemi 30-31 milljarði króna. Aðrar skráðar eignir Existu eru hins vegar færðar við markaðsvirði á hverjum tíma og lækkun á gengi bréfa birtist þá sem óinnleyst tap á rekstrarreikningi.
Miklar lækkanir hafa orðið á hlutabréfamörkuðum og þannig hefur gengi bréfa Bakkavarar, þar sem Exista fer með um 40% hlut, lækkað um 13% frá 1. október og gengi bréfa norska trygginga- og fjármálafyrirtækisins Storebrand hefur lækkað um 18% en Exista á nær 10% hlut í félaginu.
Gengi bréfa Kaupþings banka, sem Exista átti um 23% hlut í í lok september, hefur lækkað um 13,7% frá október. Þá hefur gengi bréfa finnska tryggingafélagsins Sampo, þar sem Exista á um 20% hlut, lækkað um 7,5%.