Mat á lánshæfi ríkisins tengist samdrætti á verðbréfamörkuðum

„Mér finnst þetta heldur verra," segir Árni Mathiesen fjármálaráðherra, um breytingu á horfum á lánshæfismati ríkissjóðs Íslands í neikvæðar.

„Stundum áttar maður sig hreint ekki á álitum sem koma frá þessum aðilum. Það er sífellt talað um sömu hlutina, alveg sama hverjar aðstæðurnar eru. Það er sama hvort við erum búin að skera framkvæmdir ríkissjóðs niður í 1% af landsframleiðslu eða hvort þær eru 2% af landframleiðslu. Það eru sömu athugasemdirnar sem koma frá þeim, við aðstæður sem eru allt aðrar. Það hlýtur að segja manni að þeir eru ekkert að skoða aðstæðurnar hérna hjá okkur. Ég tel raunar að þetta álit standi frekar í samhengi við þann samdrátt sem er á verðbréfamörkuðum útaf undirmálslánunum."

Árni er ekki sannfærður um að áliti matsfyrirtækjanna sé tekið af sömu alvöru og var áður. „Staða matsfyrirtækjanna er heldur veikari í dag en hefur verið. Menn telja að þeim hafi sést alvarlega yfir ýmislegt í sambandi við undirmálslánin, segir hann og vísar til þess að ofmat matsfyrirtækjanna á slíkum lánum hafi átt þátt í lausafjárkreppu á fjármálamarkaði.

Hann furðar sig jafnframt á því að álitið hafi verið birt á meðan markaðir voru enn opnir. Það geti haft meiri og skyndilegri áhrif á markaðinn en efni standi til. Ákjósanlegra hefði verið að gefa mönnum tóm til að átta sig á hvernig málin horfa í raun og veru.

Hvað varðar óbeinar ábyrgðir ríkisins vegna fjármálageirans, sem fjallað er um í álitsgerð Standard & Poor´s, segist Árni gera ráð fyrir að vísað sé til þess að Seðlabankinn sé lánveitandi til þrautavara fyrir íslensku bankana. „Það eru engar frekari skuldbindingar en það felur í sér. Ríkið hefur engar frekari formlegar skuldbindingar umfram það," segir fjármálaráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK