Þingmenn í báðum deildum þingsins á Filippseyjum hafa lýst yfir efasemdum um lögmælti sölu filippseyska ríkisins á 60% hlut í orkuveitunni PNOC-EDC. Tilboð í hlutabréfin voru opnuð í gær og átti samstarfsfyrirtæki íslensku fyrirtækjanna Reykjavik Energy Invest og Geysis Green Energy hæsta tilboðið.
Á fundi orkunefndar þingsins í morgun lýsti Miriam Defensor-Santiago, varaformaður nefndarinnar, mikilli óánægju með söluna þar sem hún hefði farið fram án þess að nefndin hefði lagt blessun sína yfir söluferlið.
Santiago sagðist raunar telja, að salan væri ólögleg. Að sögn þarlendra fjölmiðla mun nefndin hafa samþykkt samhljóða, að yfirfara söluferlið. Verður Margarito Teves, orkumálaráðherra, kallaður á fund til að útskýra hvers vegna nefndin var ekki höfð með í ráðum.
Haft er eftir Santiago, að ef útskýringar Teves verði ekki taldar fullnægjandi geti nefndin vítt hann, krafist lögbanns á söluna eða óskað eftir því við Gloria Macapagal-Arroyo, forseta Filippseyja, að ógilda söluferlið.
„Við viljum ekki að fyrirtækið verði selt vegna þess að þetta er eina ríkisfyrirtækið sem leitar leiða til að nýta innlenda orkugjafa," er haft eftir Santiago á vefnum INQUIRER.net.