Greiningardeild Danske Bank ráðleggur fjárfestum á gjaldeyrismarkaði að forðast íslensku krónuna næstu þrjá mánuði.
Ekki er ástæða til mikillar bjartsýni á framtíð íslenskra markaða, að mati Danske Bank. Augljós hætta sé á áframhaldandi veikingu íslensku krónunnar og þess verði ekki langt að bíða þar til hún fari niður í það sem hún fór lægst í fyrra.
Ástæðan er rakin til breytinga á horfum matsfyrirtækisins Standard & Poor's á lánshæfismati íslenska ríkisins. En eins og kom fram í blaðinu í gær var horfunum breytt úr stöðugum í neikvæðar vegna ójafnvægis í hagkerfinu.
Auk þess segir greiningardeild Danske Bank að veiking íslensku krónunnar auki líkurnar á að Seðlabankinn hækki stýrivexti enn meira.
Í mati bankans kemur fram að breyting á horfum Standard & Poor's hafi ekki beint komið mönnum í opna skjöldu. Ójafnvægi í hagkerfinu og versnandi aðstæður á alþjóðlegum lánsfjármarkaði hafi sett talsverða pressu á íslenska fjármálageirann. Þetta sé samt sem áður áfall fyrir íslenska markaði.