Þýski bankinn Rentenbank gaf út svonefnd krónubréf, skuldabréf í íslenskum krónum, fyrir fjóra milljarða í gær en slík útgáfa hefur verið með daufasta móti undanfarið. Fram kemur í Morgunkorni Glitnis, að Rentenbank hafi alls gefið út krónubréf fyrir 15 milljarða en þar af eru 11 milljarðar enn útistandandi. Alls eru krónubréf að nafnvirði 371,5 milljarðar útistandandi sem nemur um það bil 30% af landsframleiðslu síðasta árs.
Glitnir segir, að útgáfan í gær hafi lítil áhrif haft á gengi krónunnar, sem veiktist um 1,46%. Það sem af er í dag hefur gengi krónunnar lækkað um 0,63% og gengisvísitalan er nú 122,4 stig.
Í Morgunkorni segir, að krónubréfaútgáfur hafi oft lyft gengi krónunnar upp á við en nú sé við ramman reip að draga þar sem markaðir hafi verið í mikilli lægð undanfarna daga. Ástæðan sé fyrst og fremst mikil óvissa á erlendum mörkuðum, sem hefi áhrif á markaði hér heima.
Þá hafi tilkynning Standard & Poor´s um breyttar horfur lánshæfis ríkissjóðs komið á slæmum tíma fyrir markaði og eigi eflaust einhvern þátt í þeirri neikvæðu stemmningu, sem ríkt hafi á innlendum mörkuðum síðustu daga.