Kai Stukenbrock, aðalhöfundur lánshæfismats Standard & Poor's (S&P) fyrir íslenska ríkið, hafnar gagnrýni forsætisráðherra og fjármálaráðherra á vinnubrögð og forsendur matsins sem komu fram í Morgunblaðinu í gær.
Í viðtali við Morgunblaðið sagði Stukenbrock m.a. að þótt vaxtastefna Seðlabankans hefði leitt til einhverrar hækkunar á lánum á húsnæðismarkaði, væri hækkunin ekki mikil og benti sérstaklega á að íbúðalánasjóður hefði hækkað vexti sína minna en bankarnir. Það væri mat margra, þ.m.t. S&P að þessi hækkun væri ekki nægjanleg. Ef litið væri til lengri tíma, t.d. til 2004, væri þar að auki ljóst að húsnæðismarkaðurinn hefði ekki verið í tengslum við vaxtastefnu Seðlabankans. Ástæðan væri m.a. breytingar á Íbúðalánasjóði og samkeppni af hálfu bankanna. Þessi atriði hefðu síðan unnið gegn markmiðum Seðlabankans.