Flugvélaframleiðandinn Airbus tilkynnti í dag að afkomu fyrirtækisins væri ógnað vegna veikrar stöðu Bandaríkjadollarsins, og að enn þyrfti að draga saman seglin til að bregðast við stöðunni.
Tom Enders, forstjóri fyrirtækisins, sagði starfsmönnum fyrirtækisins þetta á fundi í Hamborg í dag og sagði að vegna stöðu dollarsins væri útséð með að hægt væri að breyta rekstrarfyrirkomulagi fyrirtækisins á „skynsamlegum hraða" til að bregðast við þessu.
Fyrirtækið hefur þegar tilkynnt um uppsagnir 10.000 starfsmanna og sölu á verksmiðjum vegna tapreksturs, sem m.a. má rekja til tafa á framleiðslu á A380 ofurþotunni. Gengi Bandaríkjadals gagnvart evru hefur aldrei verið lægra, sem þykir koma Boing, hinum bandaríska keppinauti Airbus, vel.