Álag á skuldatryggingar (CDS) íslensku viðskiptabankanna hefur hækkað mikið undanfarna mánuði og er nú hærra en áður hefur sést. Í dag er 5 ára tryggingarálag Kaupþings komið upp í 367 punkta álag Landsbankans er í 211 punktum og Glitnis í 271 punkti.
Tryggingaálag endurspeglar að öllu jöfnu vaxtaálag á skuldabréfum. Lækkun þess þýðir að virði skuldabréfanna í huga þeirra sem kaupa og selja þau á eftirmarkaði vex.
Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að skuldatryggingarálag fjármálafyrirtækja hefur almennt farið hækkandi í heiminum frá því í sumar þegar áhrifa undirmálslánakreppunnar fór að gæta með tilheyrandi lausafjárþurrð og vaxandi áhættufælni á mörkuðum. Frá því í sumarbyrjun, áður en undirmálskreppan braust út, hefur álagið á íslensku viðskiptabankana margfaldast. Þann fyrsta júní síðastliðinn stóð álag Kaupþings í 29 punktum, Landsbankans í 19 punktum og Glitnis í 24 punktum.
„Verðið á skuldatryggingum er að öllu jöfnu notað sem mælikvarði á það traust sem bankarnir njóta á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði. Því lægra sem álagið er því betra, enda endurspeglar álagið trú fjárfesta á því að fjármálafyrirtæki geti staðið við skuldbindingar sínar.
Af því leiðir að fjármögnun reynist ódýrari þegar álagið er lágt. Hafa verður í huga að markaður fyrir skuldatryggingar íslensku bankana er lítill og óskilvirkur, og því nauðsynlegt að taka ofangreindum tölum með talsverðum fyrirvara," samkvæmt Morgunkorni Glitnis. Íslensku viðskiptabankarnir eru þó ekki einir á báti. Samkvæmt ITraxx vísitölunni hefur skuldatryggingaálag evrópskra fyrirtækja nú ekki verið hærra síðan mælingar á vísitölunni hófust í ársbyrjun 2004. Þrátt fyrir víðtækar hækkanir eru sérfræðingar þó almennt sammála um að álag íslensku viðskiptabankanna hafi hlutfallslega hækkað of mikið undanfarnar vikur í samanburði við önnur norræn og evrópsk fjármálafyrirtæki. Sér í lagi er hækkun álagsins einkennileg í ljósi þess að íslensku bankarnir hafa óverulegar eignir tengdar undirmálslánum í Bandaríkjunum, öfugt við mörg þau evrópsku fjármálafyrirtæki sem orðið hafa fyrir barðinu á hækkandi skuldaálagi, samkvæmt Morgunkorni Glitnis.
Um Íslandsálag að ræða
„Þessi skoðun kom nú síðast fram í nýrri skýrslu Viðskiptaráðs Íslands um framþróun og stöðu íslenska fjármálakerfisins sem kynnt var í London í vikunni. Dr. Richard Portes, annar höfundur skýrslunnar, telur að hátt álag íslensku bankanna endurspegli ekki þá undirliggjandi áhættu sem raunverulega sé til staðar.
Að mati Portes virðist álagið hafa meira með þjóðerni bankanna en raunverulega áhættu að gera. Um „Íslandsálag" sé að ræða frekar en raunverulegt áhættuálag. Þetta gefur til kynna að enn eimi af þeim vandræðum sem íslenskt viðskiptalíf rataði í á vormánuðum síðasta árs þegar hver neikvæða erlenda greiningin á fætur annarri kom út. Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist síðan þá og upplýsingagjöf hafi stóraukist þá minnir þetta íslenskt viðskiptalíf á að aldrei má sofna á verðinum þegar upplýsingagjöf og gagnsæi er annars vegar," samkvæmt Morgunkorni.