Óvissar horfur á vinnumarkaði

Ástand á vinnumarkaði er gott um þessar mundir, atvinnuþátttaka mikil og atvinnuleysi með minnsta móti, segir á vefsíðu Alþýðusambands Íslands.

Þá segir að reyndar hafi örlítið dregið úr tólf mánaða kaupmáttaraukningu undanfarið eftir að hún náði hámarki í júní sl. Ástæðan liggi m.a. í því að áhrif af launahækkunum í kjölfar endurskoðunar kjarasamninga á síðasta ári hafi verið að detta út úr mælingum. Þá hafi verðbólgan verið að aukast síðustu tvo mánuði og vegi nú upp æ stærri hluta af launahækkunum.

Nánast ekkert atvinnuleysi

Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands var fjöldi á vinnumarkaði 184.700 manns á þriðja ársfjórðungi 2007 og fjölgaði um 6.800 milli ára. Þetta jafngildir því að atvinnuþátttaka sé nú 84% (nánast óbreytt frá fyrra ári). Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi komið niður í 0,8% í september og október og hefur ekki mælst svo lítið síðan í október 1988. Atvinnuleysi mældist mest á Suðurnesjum (2,1%) og á Norðurlandi eystra (1,5%). Alls voru 972 erlendir starfsmenn skráðir inn á íslenskan vinnumarkað í október sl. eða 267 færri en í mánuðinum á undan en 300 fleiri en á sama tíma í fyrra.

Kaupmátturinn hefur aukist

„Kaupmáttur launa hefur aukist mikið síðustu ár enda hagvöxtur mikill. Fyrirsjáanlegt er að eitthvað muni draga úr umsvifum á næstunni, m.a. vegna fækkunar framkvæmda við mannvirkjagerð og niðurskurðar aflaheimilda. Reyndar hefur örlítið dregið úr tólf mánaða kaupmáttaraukningu undanfarið eftir að hún náði hámarki í júní sl. Ástæðan liggur m.a. í því að áhrif af taxtahækkunum í kjölfar endurskoðunar kjarasamninga í júní á síðasta ári hafa verið að detta út úr mælingum. Þá hefur verðbólgan verið að aukast síðustu tvo mánuði og vegur nú upp æ stærri hluta af launahækkunum,“ segir ennfremur á vefsíðu ASÍ. Kjarasamningar á almennum markaði séu lausir nú um áramót svo og samningar margra félaga hjá hinu opinbera á vormánuðum. Óvissa ríkir því um launaþróun á næstu misserum.

Erfitt að sporna við verðbólgu

Þrátt fyrir háa stýrivexti hefur gengið illa að sporna við verðbólgu. Mest fór hún í 8,6% í ágúst í fyrra. Hún hjaðnaði nokkuð í kjölfar lækkunar virðisaukaskatts á matvælum í byrjun mars sl. Síðustu tvo mánuði hefur hún hinsvegar verið að aukast aftur. Þannig mælist tólf mánaða verðbólgan nú 5,2%. Þeir liðir sem hafa haft hvað mest áhrif til hækkunar eru kostnaður vegna eigin húsnæðis og verð á bensíni og dísilolíu. Margir aðrir liðir hafa verið að hækka upp á síðkastið, svo sem varahlutir í bíla, flugfargjöld og skófatnaður. Það verður hins vegar að líta til þess að mikið framboð er nú á nýju húsnæði og vextir á íbúðalánum hafa hækkað. Því mun líklega draga úr verðhækkunum húsnæðis á næstunni sem aftur mun hafa áhrif á verðbólgu til lækkunar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK