Nú síðdegis var skrifað undir samstarfssamning á milli fjárfestingarbankans Askar Capital og indverska fyrirtækisins SKIL Group í borginni Mumbai, sem áður nefndist Bombay, en í dag var sömuleiðis opnuð skrifstofa Askar Capital í borginni.
Það voru þeir Haukur Harðarsson, stjórnarformaður, og Tryggvi Þór Herbertsson, forstjóri, sem skrifuðu undir samninginn fyrir hönd Askar Capital og Asog Nikhil Gandhi, stjórnarformaður Skil Group, fyrir hönd indverska fyrirtækisins. Viðstaddir undirskriftina voru m.a. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og aðrir í íslensku viðskiptasendinefndinni sem nú er stödd á Indlandi.
Í tilkynningu er haft eftir Guðjóni Svanssyni, forstöðumanni nýrra markaða hjá Útflutningsráði Íslands, að ferð viðskiptasendinefndarinnar, sem fjármálaráðherra fer fyrir, hafi tekist framar vonum. Fulltrúar íslensku fyrirtækjanna hafa átt mjög gagnlega fundi með hugsanlegum samstarfsaðilum á Indlandi og nú þegar hafa tveir samningar verið undirritaðir í ferðinni.
Þá segir að búist sé við að fleiri fylgi í kjölfarið en meðal þátttakenda í ferð viðskiptasendinefndarinnar eru fulltrúar frá Glitni, Kaupþingi, Landsbanka/Hydrokraft, Geysi Green Energy, Klauf, Háskólanum á Bifröst, Milestone og Nordic Visitor auk Askar Capital.