Fjallað er um Icelandic Glacial, vatnsframleiðslufyrirtæki Jóns Ólafssonar, í breska viðskiptablaðinu Financial Times í dag og áform fyrirtækisins um að ná fótfestu á Bandaríkjamarkaði. Segir Jón þar, að áherslan sé lögð á að selja svala og nýtískulega ímynd Íslands.
Jón segist stefna á bandarískan markað fyrir gæðavöru frekar en fjöldaframleiðslu. Þar eru ráðandi vörumerkin Evian, sem Danone framleiðir og Coca-Cola dreifir, og Fiji, sem er í eigu Roll International. Bandaríska stórfyrirtækið Anheuser-Busch keypti í sumar 20% hlut í Icelandic Water Holdings og verður aðaldreifingaraðili Icelandic Glacial vatns í Bandaríkjunum.
Financial Times segir, að Fiji hafi brugðist við væntanlegri samkeppni frá Icelandic Glacial en Jón sé hvergi banginn þegar rætt sé um væntanlega samkeppni eyjavatnsins.
„Ég vil ekki gagnrýna keppinautana en þegar ég hugsa um Fiji sé ég fyrir mér pálmatré og hita. Ísland er hins vegar svalt og hressandi," segir hann.