Verð á hráolíu hefur lækkað á heimsmarkaði í morgun og er það m.a. rakið til þess, að áhyggjur miðlara af því, að truflun yrði á framboði vegna elds í olíuleiðslu í Kanada, reyndust ástæðulausar.
Verð á markaði í New York hefur lækkað um 1,55 dali í dag og er nú 89,45 dalir tunnan. Þá lækkaði verð á Brent Norðursjávarolíu um 1,78 dali á markaði í Lundúnum í morgun og er 88,44 dalir tunnan.
Verð á olíu hefur lækkað töluvert í vikunni vegna vísbendinga um að birgðir í Bandaríkjunum séu að aukast og útlit sé fyrir minni olíunotkun þar í landi vegna þess að hægt hefur á hagkerfinu.