Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands lækkaði um 13,9% í nóvembermánuði. Fram kemur í Vegvísi Greiningardeildar Landsbankans, að á 15 ára tímabili hafi vísitalan aldrei lækkað svo mikið í einum mánuði.
Þar til nú hafði mesta lækkunin átt sér stað í október 2004 en þá nam lækkunin 11,5%. Á sama tíma veiktist krónan um 2,78% þrátt fyrir talverða hækkun í þessari viku.
Vísitalan fór lægst niður í 6741 stig þann 22. nóvember en hefur síðan hækkað á ný og var í dag rétt tæp sjö þúsund stig. Í þessari viku hækkaði vísitalan um 3,4%.
Greiningardeild Kaupþings segir í ½5 fréttum sínum, að stemningin hafi batnað á hlutabréfamarkaði síðustu dægrin, m.a. vegna vísbendinga um að bandaríski seðlabankinn lækki vexti um miðjan desember. Þá hafi það haft jákvæð áhrif á markaðinn í vikunni, að skuldatryggingaálag bankanna tók að lækka eftir að Kaupþing útlistaði hvernig staðið yrði að fjármögnun á kaupum á hollenska bankanum NIBC. Þá hafi styrking krónunnar stutt við hækkun Úrvalsvísitölunnar.