Viðbrögð á markaði eru með allt öðrum hætti hér á landi en erlendis þegar spár um verðbólgu ganga ekki eftir. Hér á landi lækka vextir ef verðbólga er yfir væntingum, en hækka ef verðbólga er minni en spáð var. Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, segir að skýringin á þessu sé verðtryggingin. Hún valdi því að stýrivaxtavopn Seðlabankans virki seint og illa.
„Ég held að það megi gagnrýna stjórnvöld fyrir eitt. Íslenska ríkið á tvo banka, Seðlabanka Íslands og íbúðabanka ríkisins, sem toga hvor í sína áttina. Á undanförnum fjórum árum hefur Seðlabankinn hækkað og hækkað vexti, en íbúðabanki ríkisins hefur reynt með öllum tiltækum ráðum að halda vöxtum niðri.“