Mikil verðlækkun varð strax við upphaf viðskipta í Kauphöll Ísland. Úrvalsvísitalan lækkaði strax um 6,6%. Gengi bréfa FL Group lækkaði um 18,7% en lokað var fyrir viðskipti með bréfin í gær. Bréf Exista lækkuðu strax um 11% og SPRON um rúmlega 9% svo nokkuð sé nefnt.
Þá lækkuðu bréf viðskiptabankanna, Glitnis um 5,3%, Kaupþings um 3,8% og Landsbankans um 2,9%.
Talsverðrar eftirvæntingar gætti fyrir opnun markaðarins í Reykjavík í dag. Í Stokkhólmi lækkuðu bréf Kaupþings um rúmlega 4% í morgun en almennt hækkuðu hlutabréf þar í verði. Ástæðan var tilkynning FL Group frá því í gær um að gengi bréfa félagsins í viðskiptum sem þá voru kynnt, var 24% lægra en síðasta viðskiptagengi.
Þá hefur gengi krónunnar lækkað um 1,6% í viðskiptum á millibankamarkaði í dag.