Samþykkt var á hluthafafundi hjá Dow Jones, móðurfélagi bandaríska viðskiptablaðsins Wall Street Journal, í dag að taka yfirtökutilboði News Corp, fjölmiðlasamsteypu Rupert Murdochs. Alls samþykktu 60% hluthafa tilboðið, samkvæmt frétt WSJ. Er yfirtökutilboðið metið á 5,6 milljarða dala. Þar með lýkur langri samleið Dow Jones og Bancroft fjölskyldunnar félagið hefur verið í eigu fjölskyldunnar í meira en heila öld.
Baráttan um að eignast Dow Jones hefur verið hörð enda voru ekki allir meðlimir Bancroft fjölskyldunnar á eitt sáttir við söluna. En Murdoch tókst að lokum ætlunarverk sitt enda um gífurlega fjármuni að ræða.
En það sem flestir fjölmiðlamenn hafa velt fyrir sér er hvað verður um flaggskip útgáfunnar, Wall Street Journal. Í síðustu viku var greint frá því að breytingar yrðu gerðar á stjórnendateymi Dow Jones. Meðal annars verður Les Hinton forstjóri DJ en hann hefur stýrt útgáfumálum hjá News um langan tíma. Útgáfustjóri DJ verður Robert Thomson, en hann er ritstjóri Times í Lundúnum, blaðs í eigu Murdoch.