Gunnlaugur M. Sigmundsson, stjórnarformaður Icelandair Group, staðfestir í samtali við Morgunblaðið að félagið eigi í viðræðum við SAS um að endurnýja samstarf þessara félaga hvað varðar bókanir og ýmsan annan rekstur.
Nú þjónusti SAS Icelandair á Kastrup-flugvelli en Gunnlaugur segir samstarfsslitin við SAS hafa skaðað Icelandair verulega. Mikill ávinningur hafi verið af samstarfinu fyrir Icelandair. „Stóra málið hjá okkur á komandi ári er að halda áfram þessum viðræðum við SAS,“ segir Gunnlaugur og reiknar með að það verði eitt fyrsta verkefni Björgólfs.
Jón Karl var ekki með ráðningarsamning til ákveðins árafjölda heldur fær hann greiddan umsaminn uppsagnarfrest til einhverra mánaða.
Jón Karl segist í samtali við Morgunblaðið fara sáttur frá borði þó að menn hafi eitthvað greint á um áherslur í stjórnun félagsins. Erfitt hafi verið að fara að minnka við sig aftur störfin og sömuleiðis telji hann erfitt að greina á milli móðurfélagsins og flugfélagsins Icelandair. Þegar ljóst hafi verið að nýir eigendur vildu gera breytingar hafi verið best að ljúka þeim af sem fyrst. Ríkja þurfi traust á milli manna í þessum stöðum.
Björgólfur Jóhannsson segist líta á þetta sem mjög spennandi tækifæri en vill að svo stöddu lítið tjá sig um hugsanlegar áherslubreytingar í rekstrinum. „Þetta er eitt af stóru og merkustu félögum Íslendinga og áhugavert að stýra slíku félagi. Fyrsta verk mitt verður að setjast niður með starfsfólkinu sem hefur verið hluti af þessari skútu. Það er margt gott fólk þarna með mikla reynslu.“
Björgólfur segist ekki sjá að það fari saman að hann verði áfram formaður LÍU eftir að hann tekur við sem forstjóri Icelandair Group, sem verði væntanlega um miðjan janúar; hann verði búinn að ganga frá þeim málum fyrir þann tíma.
Ekki hefur verið tilkynnt um eftirmann Björgólfs hjá Icelandic Group.