Verð á þorskaflamarki hefur verið í sögulegu hámarki undanfarnar vikur og sveiflast í kringum 235-245 kr/kg. Fiskistofa segir, að hækkandi verð á þorskaflamarki síðustu misseri megi vafalítið fremur rekja til hækkandi verðs þorskafla og afurða og minna framboð aflamarks en til gengisbreytinga.
Fiskistofa birtir á heimasíðu sinni yfirlit yfir verð á þorskaflamarki frá árinu 2001 þar til nú. Þar kemur fram, að í megindráttum hafi verð aflamarks sveiflast framan af í takt við gengi krónunnar með nokkurri tímatöf. Þannig var verð aflamarks í hámarki í kringum 180 kr/kg á tímabilinu mars-maí 2002, en gengi krónunnar var hæst í janúar 2002.
Með lækkandi gengi krónu lækkaði verð aflamarks og var komið í 120 - 130 kr/kg í júní 2003. Síðan var verðið stöðugt, u.þ.b. 120 kr/kg, þar til verðið fór síðan hækkandi frá seinni hluta febrúar á síðasta ári en þá hækkaði gengisvísitalan verulega og hefur hækkunin haldið jafnt og þétt áfram.