„Mikil vonbrigði“ með afskriftir á síðasta fjórðungi fjárhagsársins hjá Morgan Stanley, næststærsta fjárfestingabanka Bandaríkjanna, hafa leitt til þess að forstjóri bankans, John Mack, ætlar ekki að fá greiddan neinn árslokakaupauka fyrir jólin, að því er hann tilkynnti í dag.
Bankinn tilkynnti um 9,4 milljarða dollara afskriftir á fjórða ársfjórðungi, sem lauk 30. nóvember, vegna undirmálslána á fasteignum og annarra lána tengdum fasteignamarkaði. Á fjórða ársfjórðungi í fyrra námu tekjur bankans 7,75 milljörðum dala.
„Þegar allt kemur til alls ber ég ábyrgð á því hvernig okkur gengur, og ég hef trú á að laun eigi að vera árangurstengd, og hef því tilkynnt launanefndinni að ég muni ekki taka við kaupauka fyrir 2007,“ sagði Mack í tilkynningu í dag.
Í fyrra fékk Mack hlutabréf og kauprétt upp á samtals 40 milljónir dollara, eða sem svarar 2,5 milljörðum króna.
Wall Street Journal segir í dag að fleiri forstjórar á Wall Street kunni að verða af bónusnum þetta árið vegna milljarða dollara afskrifta á síðasta ársfjórðungnum.