Stjórnarformaður og stofnandi Microsoft, Bill Gates, hefur keypt 3% hlut í mexíkóska drykkjarvörufyrirtækinu Femsa, sem er annað stærsta brugghús Mexíkó, framleiðir m.a. Sol bjór og er annað stærsta átöppunarfyrirtæki á Coca-Cola í heiminum. Kaupin eru gerð í gegnum eignarhaldsfélags í eigu Gates, Cascade Investment.
Cascade greiddi 392 milljónir dala fyrir hlutinn í Femsa, sem var stofnað árið 1892 og er með höfuðstöðvar í borginni Monterrey í norðausturhluta Mexíkó. Á vef BBC kemur fram að verð hlutabréfa Femsa hækkuðu um 7,5% á Wall Street í gærkvöldi og 7,4% á hlutabréfamarkaði í Mexíkó. Ekki er gefið upp hvenær hluturinn var keyptur né hver sé tilgangurinn með kaupunum.