Seðilgjöld heyri sögunni til

Frá blaðamannafundi viðskiptaráðherra og starfshóps í morgun
Frá blaðamannafundi viðskiptaráðherra og starfshóps í morgun mbl.is/Golli

Megin niðurstaða starfshóps sem viðskiptaráðherra skipaði um heimildir fjármálafyrirtækja er sú að bankar og sparisjóðir heimili ekki fyrirtækjum eða öðrum kröfuhöfum að bæta fylgikröfum, svo sem seðilgjöldum, við aðalkröfu gagnvart neytendum. Hefur viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, ákveðið að gefa út tilmæli þar sem slíkt verður bannað.

Starfshópur á vegum viðskiptaráðherra um heimildir fjármálafyrirtækja til gjaldtöku og fl. var settur á laggirnar síðastliðið haust til að finna leiðir til úrbóta á ýmsum atriðum er snerta FIT kostnað, seðilgjöld, uppgreiðslugjöld og fleira er tengist samskiptum neytanda og fjármálastofnanna. Kynnti starfshópurinn skýrslu sem hann hefur unnið á fundi með blaðamönnum í morgun. Jafnframt kynnti viðskiptaráðherra þær aðgerðir sem hann mun grípa til í kjölfar skýrslunnar. 

Innheimta FIT kostnaðar takmörkuð

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að óheimilt er að innheimta svokallaðan FIT kostnað (kostnað vegna óheimils yfirdráttar) nema gjaldtaka eigi sér skýra stoð í samningi. Lagt er til að fest verði í lög að slíkur kostnaður skuli vera hóflegur og endurspegla kostnað vegna yfirdráttarins.

Starfshópurinn leggur til að lögfestar verði reglur í lög um neytendalán um uppgreiðslugjald og að þar verði kveðið á um að gjaldtakan skuli eiga sér stoð í samningi og að lánveitandi geti ekki krafist uppgreiðslugjalds ef ástæða uppgreiðslu er gjaldfelling af hans hálfu.

Þá er lagt til að óheimilt verði að krefjast greiðslu uppgreiðslugjalds af eftirstöðvum láns í íslenskum krónum með breytilegum vöxtum sem greitt er upp fyrir þann tíma sem umsaminn er, ef upphaflegur höfuðstóll lánsins er að jafnvirði 50 milljónir króna eða minna.

Fyrsta skrefið í stefnumótun neytendamála

Björgvin segir  þetta  fyrsta skrefið í röð aðgerða í stefnumótun í neytendamálum sem eiga að líta dagsins ljós á næstu vikum og mánuðum og þær aðgerðir eiga að fylgja í kjölfar skýrslunnar.

Að sögn Björgvins er um löngu tímabærar aðgerðir að ræða en fjármálastofnanir muni fá tvo til þrjá mánuði til þess að bregðast við þeim aðgerðum sem gripið verður til.

Að sögn viðskiptaráðherra á að hefja vinnu nú þegar í ráðuneytinu  við að bæta lagaumhverfi í fjármálaþjónustu almennt. Teknar verða saman reglur er varða réttindi og skyldur í hefðbundnum bankaviðskiptum, þ.m.t. um heimildir til gjaldtöku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka