Hlutabréf hækkuðu í verði um leið og viðskipti hófust í Kauphöll Íslands í dag. Úrvalsvísitalan hækkaði um rúm 2% í upphafi viðskipta, bréf Exista hækkuðu um 2,3%, bréf SPRON hækkuðu um 3,13%, Kaupþings um 2,7%, Landsbankans um 1,5% og FL Group um 4,15% svo nokkuð sé nefnt.
Mikil verðlækkun hefur orðið í Kauphöll Íslands frá áramótum og í lok viðskiptadags í gær hafði Úrvalsvísitalan lækkað um 13,4% fyrstu fjóra daga ársins. Annað hljóð var í strokknum í morgun og segja sérfræðingar, að svo virðist sem tilkynning frá Exista, sem birtist rétt fyrir opnun markaðar um stöðu lausafjár og fjármögnun hafi haft jákvæð áhrif.