Greining Glitnis telur að Seðlabankinn muni stíga fyrsta vaxtalækkunarskrefið á árinu, þann 22. maí næstkomandi með 0,25% lækkun. Telur Glitnir að í kjölfarið komi lækkunarferli þar sem bankinn fer með stýrivexti niður í 12% í árslok og 9% í lok næsta árs. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Greiningar Glitnis.
„Við spáum 8% lækkun gengis krónu yfir árið og að gengisvísitalan muni standa nærri 130 stigum undir lok árs. Fyrri hluti þessa árs mun markast af hægfara veikingu krónu en í kjölfar vaxtalækkunar Seðlabanka mun gengi krónunnar gefa hraðar eftir. Á næsta ári mun krónan að líkindum sækja í sig veðrið á ný þegar aukið líf færist jafnt í innlent hagkerfi og alþjóðlega fjármálamarkaði," samkvæmt skýrslu Greiningar Glitnis.