Viðurkenna ólöglegt samráð

Samkeppniseftirlitið
Samkeppniseftirlitið mbl.is/Golli

Í kjölfar rannsóknar Samkeppniseftirlitsins hafa Greiðslumiðlun - VISA Ísland, (nú Valitor), Kreditkort hf. (nú Borgun), sem gefur út MasterCard  greiðslukort, og Fjölgreiðslumiðlun hf. gert sátt við Samkeppniseftirlitið. Í sáttum þessum felst að Greiðslumiðlun viðurkennir að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem beindust að nýjum keppinauti, PBS/Kortaþjónustunni.

Í sáttinni felst einnig að Greiðslumiðlun og Kreditkort viðurkenna að hafa haft með sér langvarandi og víðtækt ólögmætt samráð. Tók Fjölgreiðslumiðlun að hluta til þátt í því. Í sátt Fjölgreiðslumiðlunar er einnig viðurkennt að félagið hafi brotið gegn banni samkeppnislaga við samkeppnishömlum samtaka fyrirtækja.

Greiða samtals 735 milljónir króna í stjórnvaldssekt

Fallast fyrirtækin á að greiða stjórnvaldssektir vegna þessa og breyta starfsemi sinni og háttsemi á markaði. Sekt Greiðslumiðlunar er 385 milljónir króna, sekt Kreditkorts 185 milljónir króna og sekt Fjölgreiðslumiðlunar 165 milljónir króna, alls 735 milljónir króna. 

Forsaga málsins er sú að 13. júní 2006 gerði Samkeppniseftirlitið húsleit á starfsstöð Greiðslumiðlunar. Á grundvelli gagna, sem fundust hjá Greiðslumiðlun, var samdægurs gerð leit hjá Kreditkorti. Í tengslum við skoðun Samkeppniseftirlitsins á gögnum, sem lagt var hald á, komu fram vísbendingar um möguleg brot Fjölgreiðslumiðlunar og var húsleit gerð hjá því fyrirtæki þann 14. mars 2007.

Greiðslumiðlun sneri sér á síðasta ári til Samkeppniseftirlitsins og óskaði eftir því að sátt yrði gerð í málinu. Leiddu viðræður til þess að sátt var gerð við félagið 29. nóvember 2007. Kreditkort sneri sér einnig til Samkeppniseftirlitsins og óskaði eftir því að sátt yrði gerð í málinu og var sátt við það félag undirrituð 19. desember 2007.

Loks óskaði Fjölgreiðslumiðlun eftir sáttarviðræðum sem lauk með undirritun sáttar við félagið þann 7. janúar 2008. Sáttir þessar eru byggðar á 17. gr.a samkeppnislaga þar sem segir að hafi fyrirtæki gerst brotlegt við ákvæði laganna sé Samkeppniseftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt, að því er segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Telja að lyktir málsins eigi eftir að hafa jákvæð áhrif á fjármálamarkaðinn

 „Samkeppniseftirlitið telur að mál þetta sé mjög þýðingarmikið. Full rök standa til þess að lyktir þess og framangreindar breytingar muni hafa í för með sér afar jákvæð áhrif á fjármálamarkaði. Ábyrg afstaða Greiðslumiðlunar, Kreditkorts og Fjölgreiðslumiðlunar í málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins er til þess fallin að skapa mun heilbrigðara samkeppnisumhverfi og stuðla að aukinni samkeppni á þessum mikilvæga markaði," að því er segir í fréttatilkynningu.

Í eigu banka, sparisjóða, Seðlabanka og kortafyrirtækjanna

Fjölgreiðslumiðlun er fyrirtæki í sameiginlegri eigu viðskiptabankanna, sparisjóðanna, Greiðslumiðlunar, Kreditkorts og Seðlabanka Íslands. Sú þjónusta sem Fjölgreiðslumiðlun veitir er m.a. að sjá um rekstur sameiginlegrar greiðslurásar (RÁS-kerfi) fyrir greiðslukortaviðskipti.

Fréttatilkynning Samkeppniseftirlitsins í heild

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK