Tryggingarálagið í hæstu hæðum

.
.

Skuldatryggingarálag íslensku bankanna heldur áfram að hækka ört og í gær fór álagið á bréf Kaupþings í fyrsta skipti upp fyrir 400 punkta. Við lokun markaðar var álagið 480 punktar á bréf Kaupþings, 420 punktar á bréf Glitnis og 355 punktar á bréf Landsbankans. Er því um sögulegar hæðir að ræða.

Í gær gaf greiningardeild Morgan Stanley út skýrslu þar sem fram kemur að bankinn sé svartsýnn á stöðu íslensku bankanna, þá sérstaklega Kaupþings. „Við höfum enn áhyggjur af stöðu Kaupþings varðandi skuldabréfavafninga og veltum fyrir okkur hvort tilkynningar í lok nóvember drógu virkilega úr áhættunni eða hvort þær voru sýndarmennska. Svo fremi sem afborganir af eignunum standast fram að gjalddaga eru hins vegar litlar líkur á að þær muni fella bankann á næstunni. Við bíðum í ofvæni eftir endurskoðuðum ársreikningum en í millitíðinni höfum við enn meiri áhyggjur af skuldatryggingarálaginu.“

Einn dregur hina tvo niður

Höfundar skýrslunnar segjast hins vegar vera jákvæðir gagnvart Landsbanka og Glitni en lendi einn íslenskur banki í vandræðum sé hætt við að allir lendi í vandræðum. Þess vegna sé álagið á þessa tvo síðastnefndu mun hærra en það ætti að vera.

„Við óttumst það helst að þrátt fyrir að lausafjárstaða bankanna þriggja sé sterk eins og er muni staða þeirra versna eftir því sem tryggingarálagið er jafnhátt og raun ber vitni. Álagið hefur verið svona ýkt í meira en tvo mánuði og erfitt er að sjá, frá okkar sjónarhóli, að það muni lækka nema einhver bankanna verði keyptur (sem er ólíklegt) eða að hlutabréf banka hækki hratt (sem einnig er ólíklegt).“

Skýrsluhöfundar Morgan Stanley benda sérstaklega á tvö atriði sem neikvæð á íslenska markaðnum um þessar mundir. Annars vegar hremmingar Gnúps fjárfestingarfélags, sem mikið hefur verið fjallað um að undanförnu, og hins vegar þá staðreynd að bókfært virði skráðra eigna Existu er 1,2 milljörðum evra hærra en markaðsvirði þeirra. Nokkuð sem að mati sérfræðinga bankans gæti leitt til þess að Exista þyrfti að færa niður verðmæti eigna eða selja eignir.

Markaðir að glæðast

„Fyrst og fremst er það fjármögnun til vaxtar sem gæti orðið erfiðari ef staðan heldur áfram til lengri tíma,“ segir Brynjólfur Helgason, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Landsbankans. Brynjólfur segir bankann þó vera vel fjármagnaðan fyrir næsta ár, endurfjármögnunarþörf nemi aðeins tæpum 800 milljónum evra. Þá sé lausafjárstaða sterk vegna mikils innstreymis frá öðrum löndum, og ber þar helst að nefna Icesave-reikning bankans.

„Skuldatryggingarálag banka hefur almennt hækkað talsvert í vikunni, álag íslensku bankanna hefur þó hækkað meira. Það skýrist aðallega af fréttum af vandræðum Gnúps og mikilli lækkun á hlutabréfum á Íslandi,“ segir Ingvar Ragnarsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar Glitnis. Markaðir séu þó farnir að glæðast eftir erfiðar vikur og mánuði.

Fram kom í gær að Glitnir hefði tryggt þá 3,5 milljarða evra sem þarf til endurfjármögnunar á þessu ári. Samkvæmt upplýsingum frá Glitni er þó ekki um nýja fjármögnun að ræða.

Ekki fengust svör hjá fjárstýringu Kaupþings um stöðu bankans í kjölfar þessa.

Í hnotskurn
» Skuldatryggingarálag mælir hvað það kostar fjárfesta að kaupa tryggingu gegn því að útgefandi skuldabréfs geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.
» Kostnaðurinn er mældur sem álag ofan á grunnvexti. Álagið er almennt talið einn besti mælikvarðinn á markaðskjör banka á alþjóðamörkuðum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK