Seðlabankinn segir að staða ríkissjóðs sé sterk um þessar mundir og gert sé ráð fyrir að lánsfjárjöfnuður ársins 2008 verði jákvæður um 42 milljarða króna. Eins og fyrri ár gefi lánsfjárþörf ríkissjóðs ekki tilefni til að sækja fé á markað og tilgangur með skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs sé því fyrst og fremst að stuðla að virkum eftirmarkaði og styrkja verðmyndun á innlendum skuldabréfamarkaði.
Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum verður gefinn út nýr flokkur óverðtryggðra ríkisbréfa fljótlega á þessu ári. Flokkurinn verður á gjalddaga árið 2018 eða 2019. Stefnt er því að byggja flokkinn hratt upp í nokkrum útboðum á fyrri hluta ársins og gefa út samtals 35 milljarða króna á árinu.
Seðlabankinn segir, að útgáfa nýja flokksins muni styrkja innlenda skuldabréfamarkaðinn en ekki hafi verið gefinn út flokkur ríkisbréfa til svo langs tíma síðan RIKB 13 0517 var gefinn út árið 2002. Með útgáfunni lengist óverðtryggði vaxtaferillinn verulega.