Veltuaukning í smásöluverslun

Jólaverslunin gekk vel á Íslandi
Jólaverslunin gekk vel á Íslandi mbl.is/RAX

Velta í dagvöruverslun jókst um 8,6% í desember síðastliðnum miðað við sama mánuð árið áður á breytilegu verðlagi, en þá er miðað við þá krónutölu sem er í gangi hvert sinn sem mælt er óháð öllum öðrum áhrifum. Á milli mánaðanna nóvember og desember jókst velta dagvöruverslunar um 33,5%. Vöxtur í jólaverslun með dagvöru var álíka mikill og hann hefur verið að jafnaði undanfarin fimm ár. En vert er að hafa í huga að töluverð verðlækkun varð á þessum vörum 1. mars s.l. vegna lækkunar á virðisaukaskatti og afnámi vörugjalda, að því er segir í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

 Velta í dagvöru allt árið 2007 var 10,4% meiri en árið áður á breytilegu verðlagi. Í fataverslun jókst veltan um 92,8% í desember miðað við nóvember þar á undan og velta skóverslunar jókst um 65% á milli þessara mánaða.

Mælingar Rannsóknaseturs verslunarinnar á smásöluvísitölu fata- og skóverslunar hófust í janúar 2007 og því er ekki til samanburður á  þessum tegundum verslunar frá desember 2006. Sala áfengis jókst um 4,0% í desember miðað við sama mánuð árið áður á breytilegu verðlagi og 2,4% á föstu verðlagi, en þá á sér stað leiðrétting á verðlaginu með því að taka tillit til verðbreytinga sem hafa orðið á tímabilinu.

Aukning í áfengissölu 60%

 Aukning í áfengissölu milli nóvember og desember var 60% á breytilegu verðlagi og 60,5% á föstu verðlagi. Þetta er mun minni söluaukning á milli ára en sést hefur undanfarin ár. Í fyrra nam söluaukning áfengis milli ára 9,6%.

Í desember jókst velta í húsgagnaverslun um 9,3% á breytilegu verðlagi miðað við mánuðinn á undan og um 9,7% á föstu verðlagi. Í nóvember nam veltuaukning í húsgagnaverslun 19,2% frá mánuðinum þar á undan.

Samanlögð velta í þeim flokkum smásöluverslunar sem mælingar Rannsóknaseturs verslunarinnar ná til jókst um 41,7% á milli nóvember og desember.

 

„Svo virðist sem vöxtur í jólaverslun frá árinu áður hafi orðið svipaður og spá Rannsóknaseturs verslunarinnar sagði til um. Spáð var 7,8% vexti í dagvöruverslun og 11,9% vexti í sérvöru, eða alls um 9,4% vexti í smásöluverslun. Ekki liggja fyrir veltutölur úr sérvöruverslun en samkvæmt lauslegri könnun Rannsóknasetursins virðist vöxturinn í jólaversluninni vera svipaður á milli ára og í fyrra, en þá jókst heildarvelta smásöluverslunar um 10% á milli ára.

 

Frá nágrannalöndum okkar í Skandinavíu berast þær fréttir að nokkur samdráttur hafi orðið í jólaverslun með fatnað á milli ára. Hér virðist þessu vera öfugt farið og nokkur vöxtur hafi orðið í fataverslun, samkvæmt þeim upplýsingum sem Rannsóknasetrið hefur aflað frá stærstu fataverslunum landsins, þó of snemmt sé að nefna nokkrar tölur um það," að því er segir í fréttatilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK