Spá 30% hækkun á hlutabréfum

Greining Glitnis spáir því að í lok árs 2008 verði Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands komin í 7200 stig en vísitalan var 5501 stig við lok viðskipta í gær. Gangi þessi spá eftir mun vísitalan hækka um rúmlega 30% það sem af er árinu.  

Þetta kom fram á morgunfundi Félags um fjárfestatengsl þar sem Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis var meðal ræðumanna ásamt Jónasi Fr. Jónssyni, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, og Eddu Rós Karlsdóttur, forstöðumanni Greiningardeildar Landsbankans.

Glitnir spáir því að árið verði erfitt framan af á hlutabréfamarkaði og gengi bréfa muni lítið hækka fyrri hluta ársins en taka kipp undir lok ársins. Markaðir muni  ekki taka við sér fyrr en að fyrir liggi endanlegt tjón af völdum húsnæðislánakreppunnar í Bandaríkjunum og hverjir muni bera það tjón.

Greining Glitnis spáir því að talsvert muni draga úr hagvexti á árinu og að hann verði 1½% hér á landi. Það sama eigi við um hagvöxt á heimsvísu.

Glitnir segir, að við núverandi aðstæður gætu farið að leynast kauptækifæri í einstökum hlutafélögum til langs tíma. Sérstaklega nefnir bankinn bréf Bakkavarar og Teymis og gerir ráð fyrir að þau kunni að hækka meira en 20% á árinu.

Þá ráðleggur Glitnir fjárfestum að bæta við sig bréfum í Atorku, Eik Banka, Eimskip, Exista, Föroya Banka, FL Group, Kaupþingi Landsbanka, SPRON og Straumi-Burðarási.

Fram kom hjá frummælendum að staða fjármálafyrirtækja væri almennt traust og undirstöðurnar sterkar. Bankarnir ættu borð fyrir báru en helsti vandi þeirra nú og næstu mánuði væri versnandi lánakjör á erlendum mörkuðum og mjög hátt skuldatryggingaálag.

Staða íslensku bankanna í samanburði við þá norrænu er almennt talin nokkuð góð en skuldaálagið hjá íslensku bönkunum er samt 15-20 falt á við helstu norrænu bankana. Fram kom á fundinum að ná þyrfti því álagi niður og ákvörðun Seðlabankans í gær hefði verið jákvætt skref.

Frummælendur voru sammála um að framundan væri ár hagræðingar hjá bönkunum og á næstu árum væri ekki ólíklegt að einhverjir samrunar eða yfirtökur gætu átt sér stað, sér í lagi á  meðal minni verðbréfafyrirtækja.

Þá kom fram á fundinum sú skoðun, að tregða Seðlabankans við að leyfa íslenskum fyrirtækjum að gera upp og skrá hlutafé í erlendri mynt væri farin að há framþróun íslensku bankanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK