Yfirvöld samkeppnismála hjá Evrópusambandinu hafa ráðist til atlögu gegn lyfjafyrirtækjum í álfunni þeim tilgangi að finna út hvers vegna svo fá ný lyf koma á markað og hvers vegna svo fá ný lyfjafyrirtæki eru stofnuð í Evrópu.
Yfirmaður samkeppnismála hjá Evrópusambandinu, Neelie Kroes, segist vilja fá upplýsingar um hvers vegna ný samheitalyf koma jafn seint og raun ber vitni á Evrópumarkað en samheitalyf eru framleidd af samheitalyfjafyrirtækjum eftir að einkaleyfi sérlyfja rennur út.
Í tilkynningu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kemur ekki fram hvaða lyfjafyrirtæki eru undir smásjánni hjá samkeppnisyfirvöldum en að bæði sé um frumlyfjafyrirtæki og samheitalyfjafyrirtæki að ræða, innan sem utan Evrópusambandsins.
Framkvæmdastjórn ESB ætlar með rannsókninni að finna út hvort starfandi lyfjafyrirtæki séu vísvitandi að hindra það að ný fyrirtæki komist á markað með því að misnota einkaleyfisrétt sinn. Telur framkvæmdastjórnin að það hve fá ný lyf eru markaðssett bendi til þess að samkeppni sé ekki með eðlilegum hætti á þessum markaði. Á tímabilinu 1995-1999 voru þau 40 að meðaltali á árin en einungis 28 á árunum 2000-2004.
Alls eyða íbúar ríkja Evrópusambandsins um 800 milljörðum evra í lyf árlega. Segir Kroes lyfjamarkaðinn vera heilsu allra lífsnauðsyn og að öllum líkindum verði fyrirtækjunum sem um ræðir sendir spurningalistar sem þau þurfa að svara. Slíkt geti síðan leitt til opinberrar rannsóknar og ákærðu. Sekt fyrir brot af þessu tagi getur nunið allt að 10% af heildartekjum fyrirtækjanna á síðasta ári.