Allir viðskiptabankarnir standa frammi fyrir ákveðnum erfiðleikum hvað varðar lánsfjármögnun þar sem lánsféð sem til boða stendur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er afar dýrt.
Ástandið er sýnu verst hjá Glitni, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, enda ákvað bankinn í gær að hætta við fyrirhugað skuldabréfaútboð. Lárus Welding, forstjóri Glitnis, sagði í gærkvöld að erfiðar markaðsaðstæður hefðu ráðið þessari ákvörðun.
Ástæður þessa eru m.a. þær að skuldatryggingarálag bankanna er mjög hátt, allt of hátt, að mati margra. Hjá Kaupþingi er álagið í kringum 415 punktar, hjá Glitni um 335 punktar og hjá Landsbanka um 260 punktar. (Einn punktur er einn hundraðasti úr prósentustigi, þannig að 100 punktar eru sama og eitt prósentustig. Þetta álag leggst svo ofan á svokallaða LIBOR-vexti, eða millibankavexti. 400 punktar jafngilda því að 4% álag leggist ofan á millibankavextina).
Með öðrum orðum þýðir þetta að bönkunum stendur til boða endurfjármögnun á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum, sem kostar meira en sum lánin sem bankarnir eru að lána út um þessar mundir. Það er ekkert vit í því að kaupa brauðhleif á 400 krónur og selja hann aftur frá sér á 300 krónur. Það græðir enginn á því, svo myndin sé einfölduð.
Landsbankinn er ekki á sama báti og hinir viðskiptabankarnir í þessum efnum, einfaldlega vegna þess að ný lánsfjárþörf bankans er ekkert í líkingu við hinna tveggja. Lausafjárstaða Landsbankans er afar sterk. Tekið skal fram að lausafjárstaða Kaupþings og Glitnis er einnig sögð býsna góð.
Vandi Kaupþings er fyrst og fremst til kominn vegna kaupa bankans á hollenska bankanum NIBC. Síðastliðið sumar, þegar ákveðið var að ráðast í kaup á bankanum, munu forsvarsmenn Kaupþings hafa talið að alþjóðlegir fjármálamarkaðir myndu ná jafnvægi á ný á næstu þremur til fjórum mánuðum, en ljóst er að það mat var fjarri öllu lagi.
Ástandið hefur versnað til mikilla muna frá því í haust og ekkert bendir til að á því verði nokkur breyting til hins betra á næstu mánuðum og misserum.
Allur fjármagnskostnaður hefur aukist gífurlega, áhættufælni ríkir á mörkuðum og geysilega erfitt og dýrt er að afla nýs lánsfjár.
En Kaupþing á engra kosta völ. Bankinn hefur gert samning um kaup á NIBC og með einum eða öðrum hætti verður bankinn að efna þann samning.