Steinunn Sigurðardóttir, fatahönnuður hlaut í dag viðurkenningu Félags kvenna í atvinnurekstri árið 2008. Þakkarviðurkenningu FKA í ár hlaut Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands en hvatningarviðurkenningu félagsins í ár hlaut Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Landnámsseturs Íslands. Fjórðu viðurkenninguna, Gæfusporið, hlaut Veritas Capital.Viðurkenningarnar voru afhentar í Perlunni nú síðdegis.
Í niðurstöðu dómnefndar kemur fram að Steinunn vann um árabil mjög náið með Calvin Klein, Tom Ford hjá Gucci og Ralph Lauren. Árið 2000 stofnaði Steinunn eigið fyrirtæki og hóf að framleiða tískufatnað undir eigin merki.
Veritas Capital, móðurfélag Vistor, Distica og Artasan, hefur samkvæmt niðurstöðu dómnefndar, þótt skara fram úr við að virkja kraft þeirra kvenna sem hjá þeim starfa. Nú eru 67% framkvæmdastjóra Vistor og Artasan konur. Hjá samstæðunni vinna 170 manns – og eru 18 konur í stjórnunarstöðum.