Penninn hefur keypt 51% hlut í írsku kaffihúsakeðjunni Insomnia, samkvæmt frétt á írskum viðskiptavef, RTÉ. Forstjóri Insomnia, Bobby Kerr og fleiri lykilhluthafar munu eiga 49% áfram í keðjunni en að sögn Kerr verða ekki gerðar breytingar á helstu stjórnendum Insomnia þrátt fyrir breytt eignarhald.
Að sögn Kerr er stefnt að því að opna 20 ný Insomnia kaffihús á Írlandi og með tilkomu Pennans verði horft til útrásar Insomnia annars staðar í Norður-Evrópu á næsta ári. Alls starfa 200 manns hjá Insomnia.
Penninn keypti nýverið helmingshlut í Habitat á Íslandi auk þess sem Penninn á og rekur verslanir Eymundsson og Pennans. Saltfélagið er einnig í eigu Pennans. Penninn á 30% hlut í Te og kaffi. Penninn á meirihlutann í húsgagnafyrirtækinu Coppa í Lettlandi, rekstrarvörukeðjuna Daily Service sem starfar í Eistlandi, Lettlandi og Litháen og kaffiframleiðandann Melna Kafija auk fleiri fyrirtækja.
Kristinn Vilbergsson, ásamt fleiri fjárfestum, keypti Pennann af Gunnari Dungal árið 2005.