Breska blaðið Sunday Telegraph segir, að tap á rekstri verslunarkeðjanna Whittard of Chelsea og Julian Graves, sem eru í eigu Baugs Group, hafi numið 8,8 milljónum punda fyrir skatta á síðasta rekstarári, jafnvirði um 1,13 milljarða króna.
Blaðið segir, að þessar tölur komi fram í skýrslu, sem íslenska móðurfélagið skilaði til Companies House í byrjun janúar. Þar komi einnig fram, að Baugur hafi endurfjármagnað rekstur fyrirtækjanna á síðasta ári og lagt 11,2 milljónir punda til þeirra.
Sunday Telegraph hefur eftir Nicholas Shutts, stofnanda og forstjóra Julian Graves, að rekstrarárið 2006-07 hafi verið erfitt hjá verslunum sem selja tískufatnað. Hins vegar sé núverandi rekstarár mun betra hjá Julian Graves og Whittard of Chelsea, sem hefur opnað fyrstu verslanir sínar í Bandaríkjunum.
Blaðið segir að á síðasta rekstrarári hafi sjö helstu fyrirtæki Baugs í Bretlandi, ef undan er skilið House of Fraser, sem keypt var árið 2006, skilað 26,4 milljóna punda hagnaði fyrir skatta, tæpum 3,4 milljörðum króna, og sameiginlegar sölutekjur numið 2,8 milljörðum punda.
Verslunarkeðjan Iceland, sem Malcolm Walker rekur, gekk best á árinu og þótt sölutekjur hafi lækkað úr 1,7 milljörðum punda í 1,6 milljarða milli ára var hagnaðurinn 54,3 milljónir punda fyrir skatta, rúmir 6,9 milljarðar króna, samanborið við 5 milljóna punda tap árið áður.
Fataverslunarkeðjan Mk One gekk hins vegar verst og sölutekjur lækkuðu úr 169 milljónum punda í 118 milljónir.
Markaðsvirði skráðra fyrirtækja, sem Baugur á hlut í, þar á meðal Debenhams, Woolworths, French Connection og Moss Bros, hefur lækkað mikið að undanförnu.