Miklar sveiflur hafa orðið á hlutabréfamörkuðum í dag og þá sérstaklega eftir að Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti um 0,75% stýrivaxtalækkun. Í Kauphöll OMX á Íslandi hefur Úrvalsvísitalan lækkað um 2,83% en strax eftir að tilkynnt var um vaxtalækkunina í Bandaríkjunum dró verulega úr lækkuninni og hækkaði lítilsháttar í nokkrar mínútur en vísitalan hefur lækkað á ný. Bréf Exista hafa lækkað um 8,9%, SPRON um 7,58% og Eik banki um 4,73%. Tvö félög hafa hækkað í verði í kauphöllinni í dag, Century Aluminum um 0,55% og Icelandair um 0,19%.
Dow Jones vísitalan hefur lækkað um 2,29%, Nasdaq um 4,89% og Standard & Poor's um 2,69%.
Í Ósló nemur hækkun hlutabréfavísitölunnar 0,63%, Kaupmannahöfn 1,86%, Stokkhólmi 2,11%, Helsinki 0,49%. Samnorræna vísitalan Nordic 40 hefur hækkað um 1,39%.
FTSE vísitalan í Lundúnum hefur lækkað um 0,54%, DAX vísitalan í Frankfurt hefur lækkað um 2,05% og CAC vísitalan í París um 0,65%.