Neelie Kroes, framkvæmdastjóri samkeppnismála hjá Evrópusambandinu, mun koma til Íslands í júlí og taka þátt í ráðstefnu um samkeppnismál. Þetta var ákveðið eftir fund hennar og Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra í Brussel í vikunni.
Björgvin hefur undanfarna daga verið í Brussel og Lúxemborg. Í ferðinni hefur ráðherrann átt fundi með þremur framkvæmdastjórum Evrópusambandsins á fagsviðum stofnunarinnar. Auk Neelie Kroes hefur hann átt fundi með Meglena Kuneva, framkvæmdastjóra á sviði neytendamála og Charlie McCreevy, framkvæmdastjóra á sviði innri markaðar og þjónustu.
Þá tók ráðherrann þátt í morgunverðarfundi um stefnu ESB í neytendamálum og heimsótti skrifstofu EFTA og ESA í Brussel. Ennfremur heimsótti ráðherrann höfuðstöðvar íslenskra banka í Lúxemborg.
Heimsókninni lauk með óformlegum fundi í boði sendiherra Íslands með háttsettum embættismönnum og sérfræðingum á sviði gjaldmiðlamála, að því er segir á vef viðskiptaráðuneytisins.