Tveir Íslendingar, Björgólfur Thor Björgólfsson og Ólafur Elíasson, taka þátt í hinni árlegu heimsviðskiptaráðstefnu í Davos í Sviss sem lýkur í dag. Björgólfur segir í samtali við Morgunblaðið að mörg fróðleg erindi hafi verið flutt á ráðstefnunni. Almennt séu menn sammála um að fjármálakerfi heimsins hafi orðið fyrir miklu áfalli að undanförnu.
„Menn viðurkenna að það séu ákveðin grundvallarvandamál sem fjármálamarkaðir heims eiga við að stríða um þessar mundir og hér hefur umræðan meðal annars snúist um það hversu langan tíma það muni taka að vinna úr þeim vandamálum og leysa, sem nú hrjá markaðina,“ segir Björgólfur.
Hann segir fáa gera ráð fyrir að fjármálakreppan standi skemur en sex mánuði og mönnum verði tíðrætt um aukna samtvinnun fjármálakerfa heimsins, æ fleiri hallist að því að komi upp erfiðleikar vestanhafs endurspeglist þeir fljótt í Evrópu og Asíu. Einnig sé mjög rætt um vaxandi áhrif Kína og Mið-Austurlanda í efnahagslífi heimsins og dvínandi efnahagsþrótt Bandaríkjanna.
En bent sé á að þótt fjármálageirinn eigi í erfiðleikum, hlutabréf hafi lækkað og minna framboð sé af peningum, séu nú mörg tækifæri í iðnaði og nýrri tækni.
Nánar er rætt við Björgólf í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.