Stefán Pétursson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri HydroKraft Invest, sem er fjárfestingafélag í eigu Landsbankans Vatnsafls og Landsvirkjunar Power, en hann hefur stýrt fjármálasviði Landsvirkjunar undanfarin ár. Hluthafar hafa samþykkt að leggja félaginu til allt að 10 milljarða króna eigið fé eftir því sem fjárfestingaverkefni á næstu árum gefa tilefni til.
Á aðalfundi HydroKraft Invest í gær voru kjörnir í stjórn Halldór J. Kristjánsson, formaður, Ívar Guðjónsson og Pétur Örn Sverrisson fyrir hönd Landsbankans og Bjarni Bjarnason, varaformaður, Friðrik Sophusson og Björn Stefánsson fyrir hönd Landsvirkjunar.
Stefán Pétursson er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og er með MBA gráðu frá Babson College í Boston.
HydroKraft Invest hefur það að markmiði að fjárfesta í umbreytingaverkefnum og nýframkvæmdum á sviði endurnýjanlegrar orku. HydroKraft Invest hefur frá því að félagið var stofnað í mars síðastliðnum leitað tækifæra á alþjóðavettvangi, einkum þá í Suðaustur-Evrópu og eru nú til skoðunar verkefni í nokkrum löndum, samkvæmt tilkynningu.