Aldrei hafa verið gefin út krónbréf fyrir hærri upphæð en nú í janúarmánuði. Í gær gaf Ameríski þróunarbankinn út krónubréf fyrir 17 milljarða króna og hafa þá alls verið gefin út krónubréf fyrir 76 milljarða króna frá áramótum.
Frá því að útgáfa krónubréfa hófst í ágúst 2005 hefur aldrei verið gefið út fyrir jafn háa upphæð innan eins mánaðar og nú, samkvæmt Morgunkorni Glitnis.
„Útgáfa ameríska þróunarbankans í gær lokaði jafnfram bilinu á milli gjalddaga og nýrra útgáfu innan mánaðarins. Alls gjaldféllu krónubréf að nafnvirði 65 ma. króna að viðbættum vöxtum á gjalddaga innan mánaðarins.
Að september síðastliðnum undanskildum er janúar stærsti gjalddagamánuður frá upphafi. Frá því í ágúst 2005 hafa nú verið gefin út krónubréf fyrir rúmlega 650 ma.kr. Þar af eru ríflega 382 ma.kr. enn útistandandi, sem er svipuð staða og síðastliðið vor," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.