Bandaríska alríkislögreglan, FBI, rannsakar nú 14 fyrirtæki sem tengjast kreppunni sem ríkir í bandarískum undirmálslánum á fasteignamarkaði. Fyrirtækin eru ekki nafngreind en samkvæmt upplýsingum frá FBI snýr rannsóknin að byggingaverktökum, lánastofnunum og fjárfestingabönkum.
Í frétt á vef BBC er haft eftir yfirmanni hjá FBI að rannsóknin beinist að því hvort dæmi séu um bókhaldssvindl og innherjaviðskipti. Ef í ljós kemur að fyrirtækin hafi brotið af sér þá eiga þau yfir höfði sér ákæru fyrir efnahagsbrot.
Samkvæmt FBI er litið á efnahagsbrot af þessu tagi sem ógnun við hagkerfi Bandaríkjanna.