Stjórn bandaríska seðlabankans lækkaði stýrivexti um hálfa prósentu í kvöld og eru stýrivextirnir þá 3%. Er þetta í annað skipti á átta dögum, sem vextirnir eru lækkaðir til að styðja við bandaríska hagkerfið, sem sumir hagfræðingar telja að sé á barmi samdráttar.
Í tilkynningu frá bankastjórninni segir, að fjármálamarkaðir séu undir talsverðu álagi og enn sé skortur á lánsfé fyrir fyrirtæki og heimili. Þá bendi nýlegar upplýsingar til þess, að samdráttur á fasteignamarkaði hafi enn aukist og einnig séu vísbendingar um samdrátt á vinnumarkaði.
Þá sagði bankastjórnin, að ákvörðunin í dag og í síðustu viku ætti að ýta undir hagvöxt með tímanum og draga úr þeim hættum, sem steðjuðu að bandarísku efnahagslífi. Hins vegar sé enn hætta á samdrætti og bankastjórnin muni halda áfram að fylgjast með fjármálamörkuðum.