Hagnaður hluthafa Kaupþings nam 70 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 85,3 milljarða króna árið 2006. Hagnaður hluthafa eftir skatta á fjórða ársfjórðungi nam 9,6 milljörðum króna samanborið við 18,1 milljarð króna á sama tímabili 2006. Arðsemi eigin fjár á árinu var 23,5%.
Í tilkynningu kemur fram að hagnaður á hlut á árinu var 95,2 kr. samanborið við 127,1 kr. árið 2006. Hagnaður á hlut á
fjórða ársfjórðungi var 13,4 kr. (26,1 kr. á sama tímabili 2006).
Gengistapið 11,6 milljarðar
Hreinar vaxtatekjur á fjórða ársfjórðungi jukust um 60,3% á milli ára, námu 23,7 mö.kr. Hreinar þóknanatekjur á fjórða ársfjórðungi jukust um 19,0% á milli ára, námu 14,1 ma.kr.
Gengistap í Fjárstýringu nam 11,6 mö.kr. á fjórða ársfjórðungi sem að mestu má rekja til lækkunar á gangvirði afleiðusamninga, skuldabréfaeigna og eignavarðra verðbréfa.
Heildareignir 5.347,3 milljarðar
Heildareignir námu 5.347,3 milljörðum króna í lok ársins - jukust um 35,8% á föstu gengi á árinu, en um 31,9% í íslenskum krónum. Innlán sem hlutfall af heildarútlánum til viðskiptavina jukust verulega á árinu eða úr 29,6% í upphafi árs í 41,8% við lok árs, samkvæmt tilkynningu.
Arðgreiðsla 14.810 milljónir
Stjórn bankans mun leggja til við aðalfund að hluthöfum verði greiddar 14.810 milljónir króna í arð vegna ársins 2007 eða 20 krónur á hlut, sem svarar til 21% af hagnaði.
Áhersla lögð á að auka þóknanatekjur
Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, segir í tilkynningu. „Árið 2007 var gott hjá Kaupþingi. Framan af ári gekk sérlega vel en viðsnúningur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum setti mark sitt á seinni hluta ársins. Arðsemi eigin fjár nam 23,5% sem verður að teljast vel viðunandi. Vel
gengur í allri grunnstarfsemi bankans og hafa vaxtatekjur bankans aldrei verið hærri en nú á fjórða ársfjórðungi.
Óhagstætt rekstrarumhverfi leiðir til breyttra áherslna í rekstrinum og draga mun úr vexti efnahagsreiknings bankans. Áhersla stjórnenda er nú fyrst og fremst á að efla þóknanatekjur og ná fram hagræðingu í rekstrinum. Jafnframt er verið að breyta fjármögnun bankans með aukinni áherslu á innlán. Á fjórða ársfjórðungi var kynntur nýr innlánabanki á netinu, Kaupthing Edge en hann hefur þegar verið settur upp í fimm löndum. Það hefur meðal annars skilað sér í því að á síðustu fjórum mánuðum hafa tæplega 30 þúsund viðskiptavinir komið í innlánaviðskipti við bankann," segir Hreiðar í tilkynningu.