Íslensk-skoska flugfélagið City Star Airlines hefur hætt starfsemi vegna fjárhagserfiðleika. Flugfélagið hefur staðið fyrir áætlunarferðum á milli Aberdeen í Skotlandi og áfangastaða í Noregi.
Fram kemur í blaðinu Aberdeen Press Journal, að um 50 manns muni væntanlega missa vinnuna vegna þessa. Þá hafi um 100 farþegar, sem áttu pantað far með félaginu, orðið fyrir tjóni. Flugvöllurinn í Aberdeen gerði fjárnám í Dornier-flugvél félagsins.
Haft er eftir Rúnari Fossdal Árnasyni, talsmanni félagsins, að vandamálin hafi byrjað þegar landgöngutrappa rakst á eina af vélum félagsins á Aberdeenflugvelli og skemmdi hana. Félagið hafi ekki náð að vinna upp það tjón sem varð af þessu.
Flugfélagið var stofnað árið 2004 af Atla Árnasyni. Var markmið félagsins að veita fyrirtæknum, em eiga í viðskiptum milli Aberdeen og Óslóar, aukna þjónustu.