Þrír æðstu yfirmenn Google hafa heitið því að starfa saman næstu 20 árin. Samkomulagið gerðu þeir skömmu áður en félagið lét skrá sig á hlutabréfamarkaðinn í ágúst 2004.
Fram kemur í bandaríska viðskiptatímaritinu Fortune að þeir Larry Page og Sergey Brin, sem stofnuðu fyrirtækið, ásamt Eric Schmidt, stjórnarformanni Google, hafi tekið þessa ákvörðun mánuði fyrir fyrsta hlutafjárútboðið.
Schmidt greindi frá þessu í viðtali við tímaritið og bætti því við að þessum tíma loknum verði hann orðinn 69 ára gamall. Page verður þá orðinn 51s árs og Brin fimmtugur.
Sem fyrr segir er Schmidt stjórnarformaður Google, Page er yfirmaður vöruþróunar og Brin yfirmaður tæknimála. Óþarfi er að fjölyrða mikið um ríkidæmi þeirra, en þeir félagar eru milljarðamæringar.
Markaðsverðmæti fyrirtækisins er nú talið nema um 170 milljarða dala. Það er verðmætasta netfyrirtæki í heiminum.