Ungt fólk sem skuldar marga tugi milljóna króna er meðal þeirra rúmlega 600 sem leituðu aðstoðar hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna í fyrra. Unga fólkið hefur gengið á milli lánastofnana og alls staðar fengið lán, að sögn Ástu Sigrúnar Helgadóttur, forstöðumanns ráðgjafarstofunnar.
„Fyrir utan húsnæðislánin sem fólk hefur tekið vegna íbúðarkaupa hefur það tekið neyslulán í miklum mæli. Það kaupir sér bíla og fer í ferðir til útlanda en þegar harðnar á dalnum sér það fram á að það ræður ekki við afborganirnar,“ greinir Ásta frá.
Hún vill efla fjármálafræðslu og segir að slík fræðsla eigi að vera námsgrein í skólum. „Fólk ber meira en áður fyrir sig vankunnáttu í fjármálum. Við teljum mikla nauðsyn á að efla þekkingu á þessu sviði.“
Framundan er eitt annasamasta tímabilið hjá ráðgjafarstofunni miðað við reynslu fyrri ára þar sem margir sjá fram á greiðsluerfiðleika þegar gera þarf upp kreditkortareikningana vegna útgjaldanna um jólin. „Vandamálið er hversu seint fólk kemur. Því lengur sem fólk er í vanskilum, þeim mun meiri verður allur kostnaður.“